Ferill 809. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.









Þingsályktun



um stefnu um stuðning Íslands við Úkraínu 2024–2028.


________



    
    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að fylgja eftirfarandi stefnu um öflugan stuðning við Úkraínu vegna yfirstandandi innrásarstríðs Rússlands. Innrásarstríð Rússlands í Úkraínu sé alvarlegasta öryggisógn sem steðjað hefur að Evrópu frá lokum síðari heimsstyrjaldar og skýr atlaga að alþjóðakerfinu sem byggist á virðingu fyrir alþjóðalögum, friðhelgi landamæra og landhelgi ríkja. Með stuðningi við öryggi og sjálfstæði Úkraínu standi stjórnvöld vörð um beina öryggishagsmuni Íslands, alþjóðakerfið og alþjóðalög sem fullveldi Íslands byggist á.
    Markmið stefnunnar sé að styðja við sjálfstæði, fullveldi, friðhelgi landamæra, öryggi borgara, mannúðaraðstoð og uppbyggingarstarf í landinu. Stefnan byggist á skuldbindingum sem felast í stofnsáttmála Sameinuðu þjóðanna, endurspegli lýðræðisleg gildi sem íslenskt samfélag hefur í heiðri, og sé hlutfallslega sambærileg að umfangi við það sem önnur ríki Norðurlandanna leggja af mörkum. Framkvæmd hennar taki mið af framtíðarsýn og áherslum Úkraínu hverju sinni. Íslensk stjórnvöld leggi áherslu á eftirfarandi þætti í stuðningi við Úkraínu:
     1.      Öflugt tvíhliða samstarf og samskipti við stjórnvöld, þjóðþing, stofnanir, félagasamtök og atvinnulíf.
     2.      Virka þátttöku í alþjóðlegu samstarfi og málafylgju sem styðji við örugga, sjálfstæða, fullvalda og lýðræðislega Úkraínu í samræmi við vilja íbúa landsins, auk friðarferlis forseta Úkraínu og ábyrgðarskyldu Rússlands vegna áhrifa stríðsins.
     3.      Stuðning við varnarbaráttu Úkraínu til að tryggja öryggi borgara og mikilvægra innviða.
     4.      Mannúðaraðstoð við íbúa Úkraínu og vernd óbreyttra borgara í átökum.
     5.      Viðhald grunnþjónustu og efnahags Úkraínu meðan á átökum stendur og stuðning við endurreisn og uppbyggingu eftir að þeim lýkur. Í þessum efnum verði tekið mið af þingsályktun um stefnu um alþjóðlega þróunarsamvinnu Íslands fyrir árin 2024–2028, nr. 5/154.
    Heildarframlög íslenskra stjórnvalda vegna Úkraínu á tímabilinu 2024–2028 taki mið af stuðningi annarra ríkja Norðurlandanna og komi til viðbótar öðrum framlögum til utanríkis-, varnar- og þróunarmála. Til samræmis verði framlög ársins 2024 aukin um 20% miðað við árið 2023. Í tengslum við fjárlög á ári hverju verði tekin ákvörðun um heildarframlög, sem verði að lágmarki þau sömu og árið 2024, og skiptingu þeirra milli málefnasviða samhliða aðgerðaáætlun fyrir komandi ár.
    Reglulegt samráð verði haft við utanríkismálanefnd um framkvæmd stefnu þessarar.



_____________







Samþykkt á Alþingi 29. apríl 2024.